Við höfuðverk, öðrum tilfallandi verkjum og mígreni.

TREO freyðitöflur (asetýlsalicýlsýra 500 mg/koffín 50 mg) er lyf sem hægt er að kaupa án lyfseðils og er notað við höfuðverk, öðrum tilfallandi verkjum og mígreni. Börn yngri en 15 ára mega ekki nota Treo nema í samráði við lækni og aldrei ef þau eru með hita. Hafið samband við lækni ef einkenni versna eða batna ekki innan 3 daga ef um hita og mígreni er að ræða, eða innan 5 daga ef um höfuðverk er að ræða. Þungaðar konur og konur sem fyrirhuga að verða þungaðar ættu að forðast notkun Treo. Ekki má nota lyfið á meðgöngu nema í samráði við lækni. Lesið fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir, sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is. Markaðsleyfishafi er Viatris Aps.

Hvernig get ég komið í veg fyrir eða dregið úr höfuðverk?

Þegar maður er með höfuðverk er erfitt að hugsa um nokkuð annað. Hann hefur ekki eingöngu áhrif á almenna vellíðan, heldur getur einnig skert einbeitingu og ekki síst haft áhrif á skapferli. Hér eru nokkur ráð um hvernig hægt er að koma í veg fyrir höfuðverk og hvernig draga má úr honum.

Slakið á

Þér finnst kannski að það sé hægara sagt en gert. Það er alveg rétt, því til þess þarf bæði tíma og nýjar venjur. Sem betur fer er til fjöldi aðferða sem hægt er að styðjast við. Reyndu að fara í langar gönguferðir, jóga eða nudd. Teygjuæfingar á hverjum degi geta skipt sköpum. Einnig er til mikið af öppum, geisladiskum og myndböndum með æfingum sem hjálpa þér að slaka á. Leitaðu aðstoðar einhvers með heilbrigðisþekkingu til að finna hentugar æfingar, því mikið er til af röngum og skaðlegum leiðbeiningum á netinu.

Hreyfing

Þú hefur eflaust heyrt öllum kostum hreyfingar lýst ótal sinnum, en það er staðreynd að líkamleg þjálfun getur unnið kraftaverk til að mýkja spennta vöðva. Þegar blóðrásin örvast styrkjast vöðvar, líkamsbeiting batnar og það slaknar á hálsi og herðum. Ef þú situr daglangt við tölvuskjá skaltu skipta reglulega um vinnustellingu!

Takið verkjalyf

Verkjalyf geta verið skjót og skilvirk lausn til að draga úr tilfallandi höfuðverk. Verkjalyf geta innihaldið mismunandi virk efni. Til að forðast ranga notkun og velja það verkjalyf sem hentar þér á alltaf að lesa fylgiseðla og aldrei taka stærri skammta en þar er getið um. Ef þú ert í vafa skaltu spyrja lyfjafræðing í apóteki.

Drykkur

Vökvaskortur getur valdið höfuðverk, svo þú skalt drekka nokkur vatnsglös á dag. Það þarf kannski ekki að nefna að rétt er að umgangast áfengi af varfærni ef maður vill forðast höfuðverk daginn eftir.

Skráið

Skráðu hvenær höfuðverkurinn byrjar, hvernig hann er og hvað læknar hann eða gerir hann verri. Höfuðverkjadagbókin þín verður kannski engin metsölubók, en hún getur verið gott hjálpartæki til að greina mynstur og ástæður höfuðverkjarins og koma í veg fyrir hann til lengri tíma litið.

Minnkið streitu

Streita af ýmsum ástæðum er algeng orsök höfuðverkjar og má líta á það sem skilaboð frá líkamanum um að við þurfum að hægja á.

Þegar allt kemur til alls er streita óþörf. Reyndu að útiloka streituvalda úr daglegu lífi þínu. Hér eru nokkur ráð til að minnka óþarfa streitu og höfuðverk:

  1. Hugsaðu um öndunina – Þegar streitan nær yfirhöndinni verður öndunin grunn og hröð. Gott ráð til að hægja á hartslætti og minnka magn streituhormóna er að hugsa um öndunina. Andaðu djúpt að þér, alveg niður í maga. Maginn á að þenjast út þegar þú andar að þér og dragast inn þegar þú andar frá þér.
  2. Hugsaðu um eitt í einu – Þegar maður er önnum kafinn getur verið yfirþyrmandi og erfitt að vita á hverju á að byrja. Ef þú byrjar á verkefnum sem ekki eru sérstaklega erfið getur allt reynst auðveldara. Mundu líka að það er allt í lagi að biðja um hjálp ef maður þarf á henni að halda.
  3. Hreyfðu þig, en gerðu það rétt –Hreyfing veldur því að magn streituhormónsins kortisóls minnkar og ef þú ert í góðri æfingu ræður líkaminn betur við streitu. Í sumum tilvikum getur hreyfing, sem annars er holl, þó aukið á streitu í dagsins önn. Ef dagbókin er full og þú hefur þar að auki fyrirhugað að æfa hraustlega nokkrum sinnum í viku, geta æfingarnar orðið enn einn streituvaldur.

Næring

Hjá mörgum eru það næringarvenjur sem eru í aðalhlutverki í höfuðverkjarköstum. Borðaðu góðar máltíðir og nartaðu nóg þess á milli til að halda blóðsykurgildum nægilega háum allan daginn. Líttu á fæðuna sem eldsneyti fyrir líkamann.

Nudd

Nudd getur dregið úr höfuðverk og valdið því að þú slakar á. Höfuðverkur kemur oft fram við gagnaugun og í kjálkavöðvafestum, svo gott er að byrja þar.

Svefn

Þegar við sofum hvílist líkaminn og jafnar sig og til að draga úr líkum á höfuðverk ættu allir að reyna að ná 7-8 klukkustunda svefni á hverri nóttu.

Sumar nætur er þó ómögulegt að ná fullum svefni og fyrir flesta er ekki auðvelt að ná blundi í vinnu eða skóla. Lyklaborð tölvunnar er ekki góður koddi, en ef hvíldaraðstaða stendur til boða er gott að nýta sér hana. Heima fyrir er hægt að leggja sig í smástund.

Munið einnig að of mikill svefn getur valdið höfuðverk. Ef þú veist að svefnvenjur þínar eru óreglulegar getur verið gott að reyna að fá yfirsýn yfir hve mikið eða lítið þú sefur.

Athugið sjónina

Ert þú alltaf að píra augun? Renna bókstafirnir saman? Þreytist þú í augum seinni part dagsins? Pantaðu þá tíma hjá augnlækni, því hugsanlega eru það sjónvandamál sem valda höfuðverknum.

Leitið aðstoðar

Ef höfuðverkurinn er þrálátur skaltu leita til læknis. Ef höfuðverkurinn byrjar skyndilega eða í tengslum við háan hita og stífni í hálsliðum skaltu leita til heilsugæslu eða bráðamóttöku.