Margar tegundir höfuðverkjar eru þekktar og enn fleiri ástæður þess að hann kemur fram. Tilfallandi höfuðverkur getur meðal annars stafað af spennu í líkamanum, svo sem ef maður gnístir tönnum eða bítur fast saman í svefni. Hann getur einnig stafað af svefnleysi, kvefi, sjónvandamálum, áfengisneyslu, reykingum eða of miklu kaffi eða te.
Síendurtekinn höfuðverkur getur einnig átt sér sálrænar orsakir, svo sem streitu, eirðarleysi eða þunglyndi. Í mjög sjaldgæfum tilvikum getur höfuðverkur verið merki um heilablæðingu eða æxli í höfði.
Þegar við sofum hvílist líkaminn og jafnar sig. Ef við sofum of lítið eykst hætta á bæði spennuhöfuðverk og mígreni. Vísindamenn telja að ef við náum ekki svokölluðum REM-svefni, eða draumsvefni, myndi líkaminn minna af próteinum sem draga úr verkjum og meira af próteinum sem valda verkjum.
Of mikill svefn getur einnig valdið höfuðverk. Ef þú færð oft höfuðverk er mikilvægt að sofa reglulega.
Að sitja í margar klukkustundir við tölvu getur valdið höfuðverk. Á venjulegum vinnudegi breyta augun um það bil 50.000 sinnum um stefnu við skjáinn og geta ofreynt sig.
Tilteknar vinnustellingar geta einnig leitt til aukinnar vöðvaspennu í hálsi og herðum, sem oft veldur höfuðverk.
Streita af ýmsum ástæðum er algeng orsök höfuðverkjar og má líta á það sem skilaboð frá líkamanum um að við þurfum að hægja á. Ef við finnum fyrir miklu eirðarleysi, reiði eða ótta eykst spenna í líkamanum, sem einnig getur valdið höfuðverk.
Ef við sjáum illa, vegna sjónvandamála eða lítillar lýsingar, þurfum við að reyna á augun og vöðvana sem umlykja þau til að sjá betur. Það veldur aukinni spennu og getur valdið höfuðverk.
Margir sem gnísta tönnum eða bíta fast saman í svefni geta fundið fyrir höfuðverk og eymsli í kjálkum að morgni.
Það kann að hljóma mótsagnakennt, en of tíð notkun verkjalyfja getur valdið höfuðverk. Ástæður þess eru ekki þekktar, en einstaklingar sem taka verkjalyf oftar en tíu daga í mánuði í a.m.k. þrjá mánuði eru í mikilli hættu á að fá slíkan höfuðverk.
Til að vinna bug á upphaflega höfuðverknum þarf að hætta að taka verkjalyfin. Ef þig grunar að þú sért með höfuðverk af völdum lyfja skaltu leita ráða hjá lækninum.
Ef maður fær höfuðverk af völdum lyfja er mikilvægt að reyna að hætta að taka verkjalyfin til að höfuðverkurinn hætti. Það getur verið erfitt og því getur verið gott að leita ráða hjá lækninum.
Þrátt fyrir miklar rannsóknir er enn ekki vitað af hverju mígreni stafar. Þó er vitað að sjúkdómurinn er að hluta til arfgengur. Um það bil 70 prósent allra sem eru með mígreni eiga eitt eða fleiri skyldmenni sem einnig eru með sjúkdóminn
Ekki er vitað til fulls hvað gerist í höfðinu við mígreniskast. Vísindamenn telja að um sé að ræða flókið samspil taugakerfis og æða, sem veldur taktföstum höfuðverk.
Ein kenning gerir ráð fyrir því að í heilastofninum, sem er hluti heilans, sé mígrenistöð. Við mígreniskast sendir mígrenistöðin boð til verkjastöðvar í heilastofninum. Það veldur svæsnum verk. Einnig er talið að taugaboð berist til annarra heilastöðva og valdið því að sumir finna fyrir ógleði og verða ofurnæmir fyrir ljósi og hljóði.
Mígreniskast stafar af því að ytri þættir koma af stað verkjaviðbrögðum í taugakerfinu. Þessir þættir geta verið mismunandi milli mígrenisjúklinga.
Eins og við á um spennuhöfuðverk er algengt að þættir á borð við streitu og of mikinn eða of lítinn svefn komi mígreniskasti af stað.
Aðrir þættir sem geta komið mígreniskasti af stað eru
Mígrenisköst geta komið fram án þess að unnt sé að bera kennsl á þætti sem komu þeim af stað.
Hormónabreytingar hjá konum geta komið af stað kasti. Algengt er að köst komi fram í tengslum við tíðablæðingar og margar konur fá fyrsta mígreniskastið á kynþroskaskeiðinu. Einnig er algengt að dragi úr köstum hjá konum eftir tíðahvörf.
Flestar konur finna fyrir því að mígrenisköstum fækkar og þau verða vægari á meðgöngu og sumar sleppa alveg við köst. Þetta getur annað hvort stafað af því að estrógen eykst í líkamanum á meðgöngu eða að hormónabreytingar eru ekki eins miklar á meðgöngu og í venjulegum tíðahring.
Mikilvægt! Fylgist með því hvort mígreni versnar eða breytist, einkum á síðari hluta meðgöngunnar. Ef það gerist á að hafa samband við lækni, til að útiloka meðgöngueitrun.